Rakel bloggar

 

Rignandi menning!

Gærdagurinn var nú hálfgerður letidagur hjá mér! Rigningin sem lamdi gluggana mína efldi mig ekkert sérstaklega í því að kíkja á dagskrá menningarnætur.

Þrándur og Sölvi fóru í hlaupið og voru ánægðir með sig eftir það. Aron fór í Garðinn að keppa í fótbolta - svo það vorum við minnsti maður sem vorum heima.

Við hjónin áttum 11 ára brúðkaupsafmæli svo það var ákveðið að grafa í kistunni eftir spennandi mat í tilefni dagsins. Enduðum á skötusel og lúðu sem Þrándur eldaði eftir uppskrift - smakkaðist alveg ljómandi.

Veðrið var orðið hið skaplegasta eftir matinn svo við höfðum samband við Guðrúnu vinkonu mína og ákváðum að skella okkur saman í miðbæinn og horfa á flugeldasýninguna með eigin augum.

Legg ekki meira á ykkur.....við tókum strætó (unglingurinn harðneitaði að koma með) og hittum Guðrúnu og Hafrúnu dóttur hennar í Lækjargötunni. Allt gekk eins og í sögu - við héldum bara vel í hendurnar á börnunum!

Sýningin var hin flottasta og eftir hana var lítið annað að gera en að forða börnunum úr miðbænum. Við þurftum að skipta í klink og fórum inn í 10-11 í Austurstræti. Þar var hið mesta kraðak af unglingum sem voru nú ekki besta fyrirmyndin fyrir okkar börn, svo við vorum fegin þegar við komumst á strætóstoppistöðina. Guðrún og Hafrún löbbuðu beint upp í sinn vagn og skömmu síðar kom okkar; gat ekki passað betur. EEEEEEN........................................síðan hvenær krussar ellefan allan Vesturbæ Reykjavíkur?????????

Þrátt fyrir brjálaðan bílstjóra með bensínið í botni vorum við 25 mínútur á leiðinni heim!

Þetta var voða gaman en  - ég held að við horfum bara á flugeldasýninguna í fréttunum næst!


Leggja orð í belg
6 hafa lagt orð í belg
24.08.2008 22:03:51
Svo er þetta fína útsýni af forsetasvölunum mínum ;)

(gott að heyra að fleiri eru ómenningarlegir en ég)
Þetta lagði Marta í belginn
25.08.2008 22:43:04
Heyra í þér, hvað lá þér á heim???
Þetta lagði Særún í belginn
25.08.2008 23:26:30
Ja, tja, sem betur fer sofnuðum við hjónin ekki í vagninum eins og drengirnir!!:)
Þetta lagði Rakel í belginn
27.08.2008 21:11:00
Síðast þegar ég tók 11´na þá lá hún upp í Breiðholt!
Ég sá flugeldasýninguna á OL í Peking í sjónvarpinu það var flott, var þetta ekki bara eins?
Þetta lagði Sverrir í belginn
02.09.2008 22:27:57
Eru ormarnir alveg að gera útaf við þig? Engin orka eftir á kvöldin fyrir skapandi skrif.
Þetta lagði Marta í belginn
03.09.2008 22:59:49
Jæja erum við að fara á mis við hvora aðra í ræktinni... eða hvað fórstu kannski ekki á mánudaginn??? Sjáumst þar vonandi sem fyrst :)
Þetta lagði Særún í belginn