Rakel bloggar

 

Bíóferð

Við Sölvi ákváðum að fara í bíó á föstudaginn. Hann langaði að sjá myndina Bílar, og af því að myndin er um þetta ákveðna efni töldum við að nú væri lag að leyfa Elmari að fara í fyrsta skipti í bíó!

Hann var mjög spenntur við tilhugsunina og allt gekk eins og í sögu til að byrja með. Við keyptum popp og strumpanammi og settumst á góðan stað. Elmar undraðist það af hverju við værum að hvísla þarna inni - en hætti því sjálfur eftir að blaðskellandi drengur settist með pabba sínum í röðina fyrir framan okkur!

Eins og hjá fullorðna fólkinu byrjaði sýningin á auglýsingum og við Elmar kláruðum nammið okkar áður en Bílamyndin hófst....en Sölvi var enn að maula á poppinu sínu eftir klukkutíma.

Strax í upphafi fannst Elmari hávaðinn heldur mikill, hélt fyrir eyrun og skreið að lokum upp í fangið á mér. Ég reyndi að túlka myndina hljóðlega fyrir hann en þegar nálgaðist hlé þurfti hann að pissa. Við vorum svo heppin að stutt var í hléið og hann hæstánægður að labba út úr salnum og á klósettið.

Þegar hann svo vissi að við áttum eftir að klára að horfa á myndina þá leist honum ekki jafn vel á það. Hann fékk þá afarkosti - annað hvort kæmi hann aftur inn í salinn eða pabbi hans yrði að koma og sækja hann!! Það var engu líkara en ég hefði sigað Grýlu sjálfri á hann.... fyrri kosturinn varð því fyrir valinu. Við fórum samt á nammibarinn til vonar og vara.....og þá var "leikhléið" búið - eins og Sölvi orðaði það!

Einhverjum mínútum síðar - og áður en sælgætið kláraðist úr pokanum - fann ég að sá stutti var farinn að kippast til í fanginu á mér..hann var sofnaður! Hann fékk því aldrei að vita hvernig myndin endaði!

En hvernig datt mér í hug að fara í bíó með dreng sem bara hefur getað horft á rólegar myndir eins og frumútgáfu Latabæjar og Litlu ljótu lirfuna til þessa! Ég held nefnilega að Elmari finnst hann hafa einkarétt á því að búa til hávaða!

En hann sagði Grími rakara stoltur frá því í klippingunni í dag að við hefðum farið í bíó á sunnudaginn og það hefði verið mjög gaman!


Leggja orð í belg
Enginn hefur lagt orð í belg!