Rakel bloggar

 

Útilega

Ég fór í útilegu með fjölskyldunni um helgina Foot in mouth. Nei, ég fór ekki að gamni mínu, heldur var Sölvi, miðjudrengurinn minn, að keppa í fótbolta á Akranesi. Við gistum ásamt fjölda annarra foreldra á tjaldstæðinu, í retró tjaldinu sem foreldrar mínir fóru með okkur krakkana í þegar ég var enn á barnsaldri.

Ég er ekki mikil tjaldmanneskja og varð strax andvaka nóttina áður en við lögðum af stað. Ég fann kaldan svitann brjótast fram strax í Hvalfjarðargöngunum og léttur andvarinn á tjaldstæðinu var bæði kaldur og ágengur strax þegar við byrjuðum að púsla tjaldinu saman.

Það gekk nú ekki áfallalaust en eftir nokkra plástra og örlítið ragn var hin fyrrum mikla höll komin upp og fjölskyldan gat farið að hreiðra um sig í herbergjunum tveimur.

Allir sváfu á vindsængum, Aron og Sölvi á okkar elstu vindsæng, sem er með kodda og því afar óþægileg fyrir fólk í fullri stærð, Þrándur var á einbreiðri sæng og við Elmar á splunkunýrri tvíbreiðri vindsæng úr Rúmfatalagernum.

Svo er þetta bara einhvernveginn þannig að ef maður er ekki alveg að fíla þetta þá gengur allt miklu ver. Svitapollurinn sem mér finnst ég alltaf vakna í þegar ég sef í tjaldi reyndnist ekki vera ímyndun í þetta skiptið, því nýja vindsængin var bara ekki eins góð og hinar, máfarnir og kríurnar görguðu sérstaklega mikið yfir okkar tjaldi um nóttina auk tveggja klósettferða með drengjunum áður en klukkan var orðin sjö um morguninn!

Öll keppnin gekk hins vegar ágætlega fyrir sig og lið sonar míns lærði bæði að vinna og tapa, allir sáttir í lokin.

Og auðvitað er þetta gaman svona eftir á og auðvitað á ég bæði eftir að fara aftur á fótboltamót og ættarmót og gista í tjaldi.

En ég fæ samt hroll þegar ég hugsa um vindsængina........

ps. Svo þurfti ég endilega að týna perlunni úr hringnum mínum í útilegunni.....já svona er þetta!


Leggja orð í belg
1 hefur lagt orð í belg
27.06.2006 08:21:19
Sæl frænka!
Það hafa þá a.m.k. tveir guttar úr ættinni okkar verið að keppa þarna, því að Jóhannes Orri, ömmustrákurinn hennar Gerðar var þarna líka með foreldra sína og systur með sér. Hef ekki heyrt hvernig honum gekk, hvort hann lærði að vinna eða tapa eða hvort tveggja.
Kveðja,
Nína
Þetta lagði JH í belginn