Rakel bloggar

 

Drasl?!

Er ekki kominn tími til að láta heyra frá sér á annan hátt en í stikkorðastíl á facebook?! Held það bara.

Fyrsta vinnuvikan er nánast á enda og lífið að komast í fastar skorður eftir viðsnúning sólarhringsins í jólafríinu. Mikið lifandis skelfing á það nú samt við mig að hangsa svona heima hjá mér étandi konfekt og karamellur á víxl. Verst hvað maður verður aumur á sál og líkama eftir marga svoleiðis frídaga og vítahringurinn órjúfanlegur. Fimm klukkutíma andvökunætur voru að verða alvanalegar þegar hversdagurinn tók við og lífið hrökk í gang.

Jólaskrautið er nú samt ennþá uppi hjá okkur en meiningin að pakka því niður um helgina. Í leiðinni ætlum við að ráðast í það stórverkefni að láta yngri drengina skiptast á herbergjum. Sölvi fer í minna herbergi og fær um leið aðeins þroskaðra umhverfi. Við keyptum nýja kommóðu sem hann getur haft sjónvarp og playstation tölvu ofan á og fötin sín ofan í..!

Elmars fylgihlutir eru fyrirkvíðanlegra verkefni. Verandi yngsti maður í húsi er hann með dót hinna tveggja í sínu góssi auk einhverra hluta frá fyrri kynslóð. Tilfinningin sem fylgir því að líta yfir "hans"dót er svipuð því að horfa inn í bílskúrinn okkar og litlu geymsluna okkar. Þvottahúsið er á leiðinni að verða í sama dúr - með öðrum orðum erum við AÐ DRUKKNA Í EIGIN DRASLI!

Engu að síður var farin feit ferð í Sorpu í haust. Föt og skór sett í nytjagám og ýmislegt látið gossa sem var búið að vera á gólfinu um nokkurn tíma. Eitt af því síðarnefnda var enskt lingvafón námskeið frá 9. áratugnum sem ég hafði nýlega þegið af manni sem var að flytja. Ég sá strax að ég myndi seint nýta mér nokkuð af þessu námsefni þannig að ég ákvað að losa mig við það áður en það dagaði uppi í geymslunni minni.

Í vikunni birtist svo þessi auglýsing í Fréttablaðinu:

"Óska eftir að kaupa enskt lingvafón námskeið sem gefið var út eftir 1978. Staðgreiðsluverð 20.000."

 

Já maður verður seint ríkur! ;)


Leggja orð í belg
3 hafa lagt orð í belg
08.01.2009 23:25:43
...úpps...!
Hver hefði samt trúað því að þetta væri svona verðmætt? Er þetta ekki á gamaldags kassettum sem enginn getur lengur spilað?

Viðkomandi hlýtur að hafa óvart bætt við 1 eða 2 núllum aftast í verðinu ;)
Þetta lagði Sigurrós í belginn
09.01.2009 13:00:03
Já, maður er alltaf svo viss um að það sem maður er með í höndunum sé einskis virði. Það hefur einhvern veginn verið þannig síðustu ár að allt gamalt sé veðlaust, en nú eru víst að koma breyttir tímar.
Þetta lagði Ragna í belginn
19.01.2009 16:24:30
hahaha
Bara dásamlegt!

ps. Ég hins vegar "græddi" 22.500.- á föstudaginn síðasta þegar ég keypti ljós í Byko sem átti að kosta 24.000 en ég keypti það bara á 1500.- ??!!

Það fer líka í ruslið einhvern tímann!
Þetta lagði Rebekka í belginn