Rakel bloggar

 

Komin heim!

Já þær eru ekki lengi að líða vikurnar! Við komum heim frá Spáni í fyrrinótt og eiginlega ennþá að ná áttum. Þvottavélin er núna mín helsta vinkona þó hún sjái reyndar ekki um það leiðinlegasta sem tengist þvottahúsinu -  að ganga frá þvottinum!

Ferðin okkar gekk bara mjög vel. Við bjuggum á svæði sem kallast La Manga svona klukkustundar akstur í suður frá Alicante. Þetta er hálfgert "hverfi" sem er afgirt þannig að óviðkomandi er bannaður aðgangur. Verðir vakta hverfið og á næturnar eru þeir með Sjefferhunda sér til aðstoðar. Á svæðinu eru aðallega gestir sem tengjast fótbolta eða golfi...sem sagt auðmennirnir og við! Veitingastaðirnir maka krókinn með sína dýru matseðla, verðir standa við sundlaugarnar tilbúnir að bjarga frá drukknun eða passa að farið sé eftir reglum en á móti kemur að þú ert öruggur með börnin þín og allt þitt dót á svæðinu.

Íbúðirnar voru rosa fínar, Elmar Logi og Sölvi voru saman í herbergi, með sér baðherbergi og rúmi sem var minnst 1.80 á breidd. Við hjónin vorum í samskonar herbergi og svo var stofa með litlu eldhúsi. Hún var yndisleg stundin þegar ég var vakin einn morguninn með kallinu "klíning okey?" Þyrfti að hafa eina svoleiðis Maríu heima hjá mér líka!!

Við fórum eina strandferð til Torrevieca...man ekki hvernig á að skrifa það.... en þar eiga margir Íslendingar íbúðir. Raðhúsin þar minntu á Lególand, eins og lítil kubbahús í þvílíkum röðum. Sá alveg fyrir mér Íslendinga í öðru hverju húsi:)!

Á ströndinni var allt annar heimur en í sundlaugargarðinum við hótelíbúðirnar. Sölumenn og nuddkonur gengu um og maður var sífellt að gjóa augunum á farangurinn sinn í öryggisskyni! Allt gekk nú þó vel nema að Þrándur varð fyrir því óláni að missa stíftannarígildið sitt í sjóinn þegar hann stóð þar á spjalli. Skyndilega var hálft Víkingsliðið komið að leita í sjónum, blessaðir bjartsýnismennirnir - að leita að tönn í fjörusandi er jafnvel verra en að leita að nál í heysátu! Eftir á var þetta svo bara fyndið - tannlaust fólk (sér í lagi ef um framtennur er að ræða) hefur held ég alltaf vakið kátínu viðstaddra - veit ekki af hverju. Vinir Þrándar bönkuðu meira að segja uppá hjá honum rétt fyrir svefninn ...bara til að sjá hann hlæja!

Viðbrögð fólks við svona "smámunum" eru ekki öll á sama veg. Ég hefði leitað uppi tannlækni eða jafnvel íhugað að flýta heimför. En þar sem Þrándur vissi að nýja stíftönnin átti að vera tilbúin tveimur dögum eftir heimkomuna þá vildi hann ekkert gera í málinu. Gamla ráðið hans Bjarna frænda heitins var því nýtt það sem eftir var ferðar, þó nú hafi Extra tyggjó komið í stað PK!!

En núna tekur íslenska sumarið við! Kannski eins gott því ég var farin að steypast út í sólarexemi síðustu tvo dagana - þetta sólarbrölt er nú ekkert hollt, það vitum við öll. Minnsti maður var ekki meira í sólinni en þörf krafði, dökknaði þó vel en lítur eiginlega á það sem hálfgert skammaryrði ef bræður hans segja að hann sé brúnn! Hann náði ekki þessum tanfílingi sem brast út á meðal unglingsdrengjanna sem laumuðust til að kaupa sér sólarolíu í súpermarkaðnum og nota í stað sólarvarnarinnar sem mæður þeirra sendu þá með út!

Miðjumaður fylgdist aðeins betur með og lítur nú glaður á bakið á sér í speglinum og segir :"Ég er tanaður í rusl"!

Svo læra börnin það sem fyrir þeim er haft!


Leggja orð í belg
2 hafa lagt orð í belg
17.06.2008 23:25:41
Velkomin heim!
Hva, við tvíburasysturnar höfum bara báðar verið að pikka inn langar bloggfærslur á sama tíma? :)
Gott að heyra að ferðin gekk vel, þrátt fyrir uppákomuna með tönnina. Mikið rosalega hlýtur maðurinn þinn að tala mikið fyrst að tennurnar detta bara upp úr honum og út í sjó ;) hehe Hef reyndar ekki orðið vör við málæði hjá Þrándi blessuðum hingað til í þau skipti sem ég hef hitt hann, ég hélt annars að þú sæir um talið eins og sannri eiginkonu sæmir? :)
Þetta lagði Sigurrós í belginn
18.06.2008 00:16:06
Jibbí.. velkomin heim!
Þetta lagði Marta í belginn