Rakel bloggar

 

Síðustu dagar

Það er greinilega nóg að gera hjá mér - sé það á dagsetningu síðastu færslu!

Sorglegir atburðir hafa líka gerst síðan síðast, en yngsti bróðir hennar ömmu, hann Bjarni frændi lést í síðustu viku. Jarðarförin fer fram á næsta föstudag og Guðrún frænka (dóttir hans) og fjölskylda eru væntanleg frá Danmörku á þriðjudaginn. Barnabörnin hans Bjarna kölluðu hann alltaf Skóda afa, því hann ók lengi vel alltaf Skóda. Skódi afi var alltaf léttur í lund og átti auðvelt með að hæna börn að sér. Sölva er minnistæð heimsókn til Bjarna í vetur þar sem hann tók vel á móti honum og endaði á að moka klinki úr stórri krukku og gefa honum að skilnaði!

Lokatörnin í skólanum er hafin og nú þarf að klára ýmislegt til að hægt verði að senda heim með börnunum. Við ætlum að vera mikið úti við það sem eftir er - svo það má alveg búast við rigningu næstu daga!!!

Við fórum í Húsdýragarðinn með 1. bekkina á föstudaginn. Löbbuðum aðra leiðina og tókum strætó til baka.... allir væntanlega uppgefnir um kvöldið!

Á laugardaginn fór ég svo með Möggu, Snædísi og Erni upp á Akranes til að fagna 20 ára stúdentsafmæli okkar! Tíu ára stúdentar voru boðnir líka - en skammarlega fáir sáu sér fært að mæta úr báðum hópum, svo þetta varð eiginlega bara þokkalegt júróvisionpartí!

Skólastjórinn tók á móti okkur og sýndi okkur skólann. Húsnæðið hefur allt verið tekið í gegn og því breyst mjög mikið síðan ég var þarna - mér fannst ég eiginlega ekkert kannast við neitt lengur! Eftir skoðunarferðina um skólann fórum við í ratleik um bæinn sem endaði á staðnum sem við borðuðum um kvöldið. Allt hið huggulegasta þar. Magga vinkona var bílstjóri svo við komumst heim um nóttina.

Í dag var bongó blíða í Fossvogi. Ég sló garðinn aftur og fór yfir kanta og beð. Svo var Sölvi að keppa í Egilshöllinni - við Elmar kíktum á tvo leiki.

Kvöldið fór í að pakka niður fyrir Aron en hann fer í keppnisferð til Danmerkur í fyrramálið og þarf að vera mættur 4:30 í nótt. Hann er að keppa fyrir hönd Reykjavíkur með hópi drengja úr öðrum liðum í höfuðborginni. Þeir keppa svo við lið frá hinum höfuðborgunum.

 


Leggja orð í belg
Enginn hefur lagt orð í belg!