Rakel bloggar

 

Englabarnið og froskinn

Minnsti maður fór í 5 ára skoðun í dag. Þetta er búið að vera fyrirkvíðanlegt verkefni síðan við fengum boð um að panta tíma - enda skapferli drengsins óútreiknanlegt í návist foreldra.

Mér hafði næstum tekist að má verkefnið úr huga mínum þegar ég var sjálf að panta mér tíma hjá lækni í gær og mundi þá eftir væntanlegri skoðun drengsins. Við mæðgin fengum því samliggjandi tíma á heilsugæslunni í dag.

Ég var að láta líta á úlnliðinn á mér sem er farinn að há mér í einum of mörgum æfingum í ræktinni. (Þegar mánaðargjaldið er orðið hærra en 5000 á mánuði má ekki sleppa svona mörgum æfingum í einum tíma....) Í ljós kom að um er að ræða einhvern veikleika milli liða - sem verður sennilega að laga með aðgerð - spennandi! Fer í frekari rannsóknir síðar!

Minnsti maður fylgdist með lækninum svona þokkalega þolinmóður og nokkuð skapgóður. Labbaði svo keikur með mér inn til hjúkkunnar á eftir og sætti sig við spurningar og beiðni um furðulega hluti eins og að hoppa á einum fæti út um allt. Hann leyfði konunni að mæla hæð sína og vigta og tók vel í að teikna mynd af móður sinni á blað. Þar birtist þessi fína höfuðfætla með sítt hár og stór augu. Hann skellti meira að segja á hana þvertoppi á síðustu stundu. Pabba sinn setti hann svo í bakgrunninn og sig sjálfan mér á vinstri hönd.

Hjúkkan horfði á myndina og brosti, hældi honum en sagði svo - "er mamma með maga". Hann horfði með manndrápsaugum á konuna og sagði frekar fúll "ég teikna bara svona fólk"!! Ég held reyndar að hann sé alveg að detta inn í að teikna fólk með búk en það má ekkert minnast á að eitthvað vanti - hann tekur það óstinnt upp!

Á þessum tímapunkti hélt ég að hjúkkan hefði klúðrað málum - því aðal málið var eftir - SPRAUTAN! Ég og bræður mínir erum fræg fyrir að hafa forðast sprautur eins og heitan eldinn á okkar yngri árum (og ég reyndar enn - en það vita börnin mín ekki). Var það ekki Friðgeir sem hljóp til fjalla og læknirinn á eftir þegar átti að sprauta hann í skólanum fyrir vestan? Ég grét fyrir framan skólafélagana yfir minni sprautu og afsakaði mig svo á eftir með því að segja að "þetta hefði verið alveg eins og að fá tvær sprautur þetta hefði verið svo vont"!

En - minnsti maður fór bara þegjandi og hljóðalaust úr peysunni til að láta sprauta sig og kveinkaði sér ekki einu sinni! "Sko - ég fór ekkert að grenja" sagði hann!

Já svona getur hann komið manni á óvart litla englabarnið - kannski er froskinn að koma hjá honum!


Leggja or belg
3 hafa lagt or belg
27.02.2008 08:33:33
Minn er alltaf eins og englabarn hjá læknum og tannlæknum og öllu þannig, svo lætur hann eins og bestía þegar við reynum að koma honum á fætur á morgnana, við erum að tala um blót, formælingar og stólakast. Alltaf laumast þó lítið "fyrirgefðu" út úr honum undir lokin, vona að þetta froskist af honum eins og þínum ...
etta lagi Marta belginn
27.02.2008 23:07:26
Hvað er ein sprauta milli vina?
etta lagi Afi belginn
01.03.2008 13:09:10
Flott hjá honum!
etta lagi Sverrir belginn