Rakel bloggar

 

Langt síðan síðast!

Tíminn er allt of fljótur að líða þessa dagana - og fáar stundir til að blogga.

Síðasta vika var býsna þétt. Nú eru kóræfingar hjá mér á mánudögum og miðvikudögum. Leikfimi á miðvikudögum og föstudögum. Það var saumaklúbbur hjá Snædísi síðasta sunnudag og á mánudaginn var foreldradagur í skólanum. Á þriðjudag var svo skipulagsdagur sem að hluta til var nýttur sem vinnuferð í Reykjanesbæ. Þar skoðuðum við skóla og fengum leiðsögn um gamla "varnar"svæðið og Njarðvík og Keflavík. Okkur var boðið út að borða á eftir og maður kom dauðþreyttur heim klukkan hálf níu um kvöldið.

Á fimmtudagskvöldið fórum við Aron í kertagerðina Týru sem frænkur okkar Særún og Gerður eru með. Ég var búin að gera mér í hugarlund hvernig litaþema yrði í veislunni og honum virtist standa á saman.....þangað til við mættum á svæðið! :) Hann ákvað sem sagt að litirnir yrðu í grænum tónum og bjó til kerti sem verða í skreytingunni á fermingarborðinu hans þann 16. mars. Hann fór hamförum í bílskúrnum hennar Gerðar (þar sem kertagerðin er til húsa) og hefði getað gert miklu fleiri kerti en ....okkur fannst nú 4 alveg nóg! Þetta var mjög skemmtilegt kvöld og svolítið öðruvísi að fá að velja bæði lit og lögun kertanna sjálfur!

Í gær vorum við svo með villibráðarveislu fyrir matarklúbbinn okkar - fullt af girnilegum réttum sem hafa þróast hjá okkur með árunum - og verða ekki toppaðir hér eftir! Siggi frændi Þrándar kom til okkar eftir hádegi í gær og setti punktinn yfir i - ið með allskyns drippi og fínheitum svo maður fær bara vatn í munninn við tilhugsunina.

Í dag voru svo úrslit í Íslandsmeistaramótinu í innanhússfótbolta hjá Aroni og félögum. Þar töpuðu þeir því miður úrslitaleiknum á móti KR og urðu í öðru sæti. Út af fyrir sig ekki slakur árangur - en alltaf fúlt að tapa úrslitaleik!

Þá er vinnuvikan framundan. Nú verður fermingarundirbúningurinn að fara á fullt - boðskortin eru ekki fullhönnuð og fötin eru enn ókeypt. Ekki er búið að panta myndatökuna og leirtauið er óleigt!!

Hvaða, hvaða..........!!!!!!

 


Leggja orð í belg
3 hafa lagt orð í belg
17.02.2008 22:49:36
Gleðst yfir gæsalöppum á varnar
Þetta lagði GHF í belginn
18.02.2008 09:35:25
Nojnoj - korter í fermingu, eins gott að halda vel á spöðum!
Þetta lagði Marta í belginn
18.02.2008 18:03:12
Handverksmenn?
Þið getið þá komið í heimsókn í bílskúrinn hjá okkur og fengið að föndra við gler og leir (þ.e. þegar við verðum búin að fá bílskúr)
Þetta lagði Sverrir í belginn