Rakel bloggar

 

Annir...og appelsínur

Það koma svona dagar þar sem allt er að gerast! Í gær kom upp sú staða að mér var boðið í heimsókn á tvo staði á sama tíma. Þar sem ég  vil ekki af neinu missa, datt mér í hug að reyna að vera á tveimur stöðum í einu! Þeir sem hafa fengið þá hugmynd vita reyndar að það er ómögulegt - en tímasetningarnar voru nú reyndar ekki alveg þær sömu.

Eftir að við Særún höfðum púlað í gluggalausa salnum í Hreyfingu (ekki var inni í myndinni að sleppa tímanum því ég verð að fá eitthvað fyrir peninginn) þaut ég heim í sturtu. Því næst brunaði ég og borðaði japanskan mat með heldri konunum úr ævistarfinu, áður en ég fór og hitti æskuvinkonur mínar frá Patró.

Á sama tíma voru foreldrar mínir á leið suður í óvænta heimsókn - þannig að fjölskyldan tók á móti þeim á meðan ég var í útstáelsinu. Það var liðið á nóttina þegar ég skutlaði Ástu upp í Grafarvog og þá var komin snjómugga þannig að nú er allt hvítt úti.

Aron og félagar þurftu svo að fara í keppnisferðaleg til Ólafsvíkur í dag og voru lagðir af stað klukkan 8 í morgun. Mamma og pabbi eru farin að vitja eldri borgaranna og Sölvi var boðinn í afmæli klukkan 12.

Já það koma svona dagar þar sem allt er að gerast!

 

ps. Fyrirsögnin er tilvitnun í þátt sem var í sjónvarpinu á unglingsárum mínum. Upptaka af einum þættinum er til í fórum vina minna og er sýndur við hátíðleg tækifæri. Sá þáttur var tekinn upp í framhaldsskólanum okkar - og lengsta senan sýnir okkur vinkonurnar á dansgólfinu á skólaballi með þvílíkt blásið hár í takt við tíðarandann þá. Ég held að enginn geri sér almennilega grein fyrir því hvað stærð gleraugna hefur breyst síðan á þessum árum!!!!!


Leggja orð í belg
1 hefur lagt orð í belg
12.01.2008 13:48:34
Man eftir þættinum, lék þar fjórhent á píanó (átti reyndar ekki allar fjórar hendurnar sjálf) og var örugglega með risastóru, svörtu plastgleraugun mín á nefinu til að sjá á nóturnar. Þekki sem betur fer engan sem á þetta á myndbandi :S
Þetta lagði Marta í belginn