Rakel bloggar

 

Nýárstiltekt!

Það er oft talað um það að í upphafi nýs árs sé gott að hreinsa til á andlegum og veraldlegum sviðum.

Dagblöð yfirfyllast af fróðleik um heilsurækt og hollan mat og svo er líka bent á það að gott sé að taka til í koppum og kytrum og koma óþarfa hlutum á nýja staði. Hvað segir nú orðatiltækið aftur: eins rusl er annars gull...... eða eitthvað í þá áttina!

Ég hef áður bent á það hér í blogginu að rykið eigi upptök sín hér á heimilinu og það sama hef ég sagt um smáhlutina. Það er ekki eðlilegt hvað safnast saman af litlum og skrýtnum smáhlutum hér á bæ!

Í dag réðst ég til dæmis á þvottahúsið....og losaði út gamalt skótau, staka sokka, spýtur og nokkrar körfur af smáhlutum! Svo reynist mér lífsins ómögulegt að henda þeim eins og þær leggja sig þó við höfum einskins saknað úr þeim í marga mánuði. Alltaf finnur maður samt eitthvað sem passar á hitt og þetta dótið og oft veit ég hvaðan draslið kemur - þó ekki sé það nú alltaf raunin.

Annað sem fór út úr þvottahúsinu í dag er ..............gamla ryksugan!!!!!!!!!!!!!!!!

Eiginlega hefði þurft sérstaka færslu hér á blogginu um gömlu ryksuguna, svo mikið hefur hún komið við sögu varðandi geðlægðir á heimilinu undanfarin ár!

Þannig var að við höfðum aldrei keypt okkur ryksugu - hjónin; fengum bara gamla Nilfisk ryksugu frá mömmu og pabba þegar við fórum að búa og hún dugði heila eilífð!

Þegar við fluttum í Ljósalandið var hún notuð svolítið við múrbrot og annað, svo við keyptum okkur nýja ryksugu á niðursettu verði í Húsasmiðjunni sem vægast sagt bætti á mig nokkrum gráum hárum strax á fyrsta degi!!! Hávaðinn var þvílíkur að ég þurfti alltaf að vara fólkið í næstu götu við ef ég ætlaði að ryksuga!!!! Geðheilbrigði heimilsfólks fór verulega aftur á nokkrum vikum ....... og mátti nú ekki við því!!!

Nokkur jól hef ég því búist við einni vinkonu í pakkanum mínum frá fjölskyldunni - eða jafnvel frá nágrönnunum, en ekki hefur það nú orðið.

En fyrir þessi jól ákvað ég að nú þyrftum við að eignast nýjan grip, enda múrverksryksugan háværa hætt að soga nokkurn skapaðan hlut þrátt fyrir sama hávaðann. Ég stormaði því til Hrólfs frænda í Max og skellti mér á eina pokalausa, eldrauða og sanseraða ryksugu með þolanlegu hljóði og þokkalegum sogkrafti.

Ég byrjaði strax að prófa - fann strax nokkra galla; of stutt snúra, of stutt skaft auk þess sem hún var meira og minna á hliðinni þegar ég ætlaði að draga hana áfram. Sagði samt ekkert....enda fór hún vel á gólfi......þangað til einn daginn að ég fékk næstum taugaáfall í þvottahúsinu þegar barkastatívið á tækinu brotnaði upp úr þurru og barkinnn datt á mig þar sem ég var að taka úr þurrkaranum.

Nú var ekki um annað að ræða en að skila tækinu til Hrólfs frænda. Við drógum eldspýtu um hvort okkar ætti að labba með tækið inn í búðina og það kom í minn hlut. Afgreiðslumaðurinn skynjaði strax kómíkina í aðstæðunum og spurði hvort ég væri mætt til að þrífa búðina! Ég tók bara vel í það, en kom svo auga á frændann - sem hlýtur að fara að sjá rautt þegar ég kem - enda búin að bögga hann nokkrum sinnum síðan hann búðin opnaði!

Til að gera langa sögu stutta og já, ímyndið þið ykkur bara hvernig ég tók hverja ryksuguna á fætur annarri, dýra sem ódýra, stakk í samband, prófaði snúrulengd og barkastærð þannig að Hrólfur frændi var örugglega farinn að örvænta - en sá strax að Philips dvergryksugan var eins og sköpuð fyrir mig. Nett og barkalöng með gígantíska snúrulengd og umfram allt - hljóðlát.

Nú er búið að taka til í þvottahúsinu og stilla nýju ryksugunni upp á sinn stað - eigum bara eftir að fara í gegnum nokkra smáhluti sem voru settir fram á gang í tiltektinni!!! ;) 

ps. Þrándur kroppaði stífluna úr gömlu ryksugunni á leiðinni út í bílskúr...... kannski hægt að ryksuga tjaldvagninn með henni! ;)

 


Leggja or belg
7 hafa lagt or belg
05.01.2008 23:22:58
Hmmm, þarf að yfirheyra þig nánar um nýju, fínu ryksuguna... Við hér í Betrabóli eigum nefnilega litla og ódýra ryksugu sem er ekki alveg jafndugleg að sjúga ryk eins og hún er við að framleiða hávaða - en ég hef ekki nennt að kynna mér ryksugurnar á markaðnum til að kaupa nýja. Ég þarf greinilega að kíkja til þín í "kaffi" við tækifæri og fá að prófa að ryksuga pínu ;)
etta lagi Sigurrós belginn
05.01.2008 23:38:30
Nú - er þá gamli Nylli allur. Hjá okkur lifir ennþá Körby gamli sem er svo hávær að hross fælast í Bárðardal þegar byrjað er að ryksuga. Það er ekki sama gæfa og gjörvileiki/sogkraftur og hávaði.
etta lagi GHF belginn
06.01.2008 01:15:38
Sigurrós, komdu líka til mín og prófaðu að taka í nýja Nilfiskinn minn, tékkaðu á samanburðinum. Eftir næstum 20 ára búskap með gamlar-, tilboðs-, ódýarar ryksugur var tími kominn á almennilegt tígrisdýr. Sé ekki eftir því.
etta lagi Marta belginn
06.01.2008 18:24:55
Þú ert í góðum málum með mig og Mörtu með þér í ryksugupælingunum! Prófaði einmitt nýja Nillann....þar heyrist bara í skaftinu - pælið í því!!!!
etta lagi Rakel belginn
06.01.2008 21:36:28
Þið eruð náttúrulega bara snillingar! Veit ekki einu sinni hvaða tegund mín er... held hún sé hávær og ryksugi nokkuð vel, samt ekki viss!! Spurning hver sér mest megnis um að ryksuga á heimilinu ;)
Annars gleðilegt ár og sjáumst vonandi fljótlega.
etta lagi Margrét Arna belginn
06.01.2008 23:00:49
Haltu mér, slepptu mér.
Já, þannig að ég get ekki gefið þér nýja ryksugu...
Ég á líka gamlan nilfisk sem Friðgeir bróðir gaf mér. Átti reyndar aðra ryksugu sjálfur og hef verið duglegur að bjóða þá gömlu til brúks. Bjössi tengdó reyndi að nota hana þegar hann var að gera nýju sólstofuna en var fljótur að gefast upp, sagði að það væri sennilega langt síðan hún hætti að sjúga. Ég hef ekki hugmynd því það eru mörg ár síðan ég notaði hana síðast, talandi um að vilja ekki henda hlutum (ættgengt)?
etta lagi Sverrir belginn
09.01.2008 10:17:31
Ha ha
Já´ættgengt! Mín gamla Nilfisk er komin í geymslu eftir 20 ára þjónustu en henda henni neiii:)
etta lagi olga belginn