Rakel bloggar

 

Snjórinn kominn - líka í Reykjavík

Alltaf kemur það manni á óvart þegar það snjóar svo mikið að það þarf að moka. Einhvernveginn finnst mér að það eigi bara að vera í minningunni - svona eitthvað sem gerist bara fyrir vestan......og núna í seinni tíð fyrir norðan.

Við vissum alveg af yfirvofandi snjókomu, svosem búið að vera í kortunum undanfarna daga. Ætluðum einmitt að taka hjólin inn í bílskúr áður en þau myndi snjóa niður á tröppunum.

Vöknuðum svo í morgun og sáum varla út. Bíllinn á kafi og líka hjólin. Lítið sást af sólhúsgögnunum nema fætur á stólum og borðum (höfðum snúið öllu á hvolf í rokinu um daginn).

Svona er þetta með jólin líka. Ekki er við búðareigendur að sakast, þeir byrja að minna mann á jólin í lok október. Maður býsnast yfir þessu óðagoti og berst gegn jólaspennunni hjá börnunum - bæði heima og að heiman.

Svo endum við alltaf á því að vera með allt á síðustu stundu og það hefur komið fyrir að pökkum heimilisfólks hefur verið pakkað í pappír rétt áður en jólin hringja inn.

Ég stefni á að hafa þetta ekki svona í ár. Núna tek ég þátt í jólaspenningnum með sonunum af fullum krafti. Í morgun spiluðum við jólalög, síðdegis hituðum við súkkulaði og núna er verið að perla jólaskraut! Laughing


Leggja orð í belg
Enginn hefur lagt orð í belg!