Rakel bloggar

 

Spegill, spegill, herm þú hver.........

Mér hefur einhverra hluta vegna orðið tíðrætt um peninga í færslunum mínum í haust. En eins og við vitum öll skipta peningar engu máli....ef þú átt nóg af þeim! Í nútímaheiminum virðist ekki vera hægt að snúa sér við án þess að það kosti peninga. Nýjasta bröltið mitt í húsinu okkar snýst um að setja nýja spegla á baðherbergið og gestaklósettið. Ég hef í gegnum tíðina séð patent auglýsingar frá fólkinu í Innlit útlit þar sem menn frá Glerslípun og speglagerð komu í húsin og vippuðu upp heilu og hálfu speglunum (vonandi oftar heilu...) með litlum fyrirvara. Auðvitað setti ég mig í samband við þá og pantaði mann til að taka mál. Ég vissi að máltaka kostaði sitt og var tilbúin að borga umræddan 7500 kall fyrir að hafa málin rétt!!! Tíu dögum seinna kom maðurinn og tók málin og núna tæpum mánuði eftir máltökuna hringdi hann til að mæla sér mót við okkur með herlegheitin. Hann vildi helst koma snemma dags og var mjög hissa á að við skyldum eiga erfitt með að taka okkur frí í vinnu til að hjálpa honum við uppsetninguna. Hann tekur eins og áður 6100 á tímann og 1500 fyrir aksturinn og gerir ráð fyrir 2-3 tímum í verkið. Þá erum við komin í um 27.000 krónur og er þá ótalinn sá peningur sem ég borga Speglagerðinni fyrir speglana sjálfa.....sem er um 30.000. Svo keypti ég ljós til að fella inn í speglana en þau kostuðu um 15.000. Þetta brölt mitt - sem er auðvitað tómur hégómi ef maður hugsar um fátæku börnin í Afríku - hefur sem sagt verið að vinda smátt og smátt upp á sig! Nú sé ég mest eftir því að hafa ekki bara látið laga á mér nefið í staðinn! En ég get nú huggað mig við það að í svona dýrum speglum hlýtur maður að verða ótrúlega myndarlegur!!!


Leggja orð í belg
1 hefur lagt orð í belg
15.11.2006 23:11:06
Þeir fara nú ekki að setja upp spegla á einhverjum kennaralaunum.
Þetta lagði GHF í belginn