Rakel bloggar

 

Eru farir mínar sléttar?

Seinni þemadagurinn var rigningarsamur í upphafi og kom sér því vel að byrja vinnuna í skólanum og fara svo á vettvang - svona upp á veðrið að gera! Úthald barnanna er hins vegar alveg á þrotum eftir hádegi á svona þemadögum svo það lá í loftinu að eitthvað færi ekki eins og það átti að fara.

Þegar við komum í skóginn var komið hið besta veður og við lukum prógraminu með nokkrum háværum rokum frá kennaranum um að einbeita sér við útikennsluna!

Stuttu fyrir heimför hitti ég smíðakennarann sem ég hef áður getið (karlkyns...þið munið) og bað hann að sýna mér góð tré til klifurs. Hann benti á eitt sem hann hefði sérstaklega útbúið - sterklega furu sem hafði verið greinasöguð þannig að stubbarnir stóðu út í loftið.

Ég hóaði í nokkra krakka sem allir vildu ólmir klifra og þrátt fyrir flaut hinna kennaranna leyfði ég þeim að klára. Hvatti þá (kvenkyns og karlkyns) óspart til að fara hærra og lokaði öðru auganu við tilhugsunina um að einhver dytti!

Þegar leggja átti af stað heim vantaði hins vegar 3 börn í hópinn. Við leituðum, kölluðum, flautuðum og fórum með hópinn í átt að Perlunni, í þeirri von að heyra ef "týndu" börnin kölluðu. Skóladagurinn var á enda og hópurinn minn fór í fylgd annarra niður í skóla. Ég og annar kennari urðum eftir og fínkembdum svæðið.

Að lokum fundum við börnin, sem höfðu að gamni sínu "týnst" okkur til mikilar hrellingar!

Ég segi farir mínar ekki sléttar....en hef enn ekki sagt starfi mínu lausu!


Leggja orð í belg
Enginn hefur lagt orð í belg!