Rakel bloggar

 

Raunasaga skólatösku

Sölvi byrjaði í skóla síðastliðið haust og fékk skólatösku eins og gengur og gerist. Sem kennari reyndi ég að velja tösku sem væri bæði góð fyrir bakið og budduna og endaði á að kaupa 4000 króna tösku í "Office Wondershop". Það er skemmst frá því að segja að eftir 2 vikur var taskan komin í hengla líkt og eftir heilt grunnskólanám svo ég stormaði aftur í búðina og fékk töskuna endurgreidda í peningum! Nú ætlaði ég sko ekki að lenda í neinu svona aftur þannig að ég splæsti í tösku fyrir drenginn sem kostaði á níunda þúsund!! Á aðventunni tók ég svo eftir því að nokkrir fylgihlutir voru dottnir af töskunni og núna undir vorið kom í ljós stór saumspretta. Þetta leist mér ekki á svo ég stormaði enn á ný í búðina......sem betur fer ekki þá sömu og áður......og átti nú allt eins von á óblíðum móttökum - undirbjó mig meira að segja undir það að barnið mitt yrði kallað töskuböðull. En raunin varð nú aldeilis önnur. Verslunarstjórinn stökk til og fann alla þá varahluti sem þurfti til að taskan liti út eins og ný og sendi mig svo á töskuviðgerðarverkstæði þar sem taskan verður saumuð saman eftir skólaslitin núna í júní! Já þetta er Griffill í dag - frábær þjónusta!

Leggja orð í belg
2 hafa lagt orð í belg
23.05.2006 16:01:41
Já, það er sko ekki alls staðar svona góð þjónusta. En varðandi töskurnar þá keypti ég tösku í Skólavörubúinni sem entist Maríu Gyðu í 4 ár og hefði enst lengur en var orðin svolítið barnaleg fyrir dömuna.
Þetta lagði Bryndís í belginn
23.05.2006 19:49:30
Það hefur örugglega verið sama tegund, því Aron bíður hreinlega eftir því að hans taska skemmist einhvernveginn! Sú er sömu sortar! Þess vegna vissi ég að þetta gæti ekki verið eðlilegt slit!
Þetta lagði Rakel Guðmundsdóttir í belginn