Rakel bloggar

 

Sagan af ljósinu litla

Sagan hófst fyrir ári síðan. Tengdamóðir mín hafði verið að lýsa fyrir mér ljósi sem hún sá í auglýsingabæklingi og langaði til að eignast. Þar sem jólin voru í nánd sá ég mér leik á borði að gefa henni ljósið í jólagjöf.

Ég fór á stúfana og fann ljós sem passaði við lýsinguna - fannst það reyndar alls ekki fallegt - en það hafa nú ekki allir sama smekk! Mér fannst við hafa leyst gafamálin farsællega með því að gefa eitthvað sem hún örugglega vildi, en kæmi samt á óvart því ég hafði alls ekki látið hana finna að ég hefði krækt í ljósið!

Svo kom að aðfangadegi og þegar ljósið kom upp úr pakkanum leyndi furðusvipurinn sér ekki á tengdamóður minni - þetta var alls ekki ljósið sem hún hafði séð í umræddum bæklingi!!

Ljósinu var skilað fyrir innleggsnótu því óskaljósið var uppselt. Tíminn leið og aldrei kom ljósið. Innleggsnótan var orðin upplituð þegar dag einn núna í desember að við sjáum að óskaljósið litla var komið aftur í búðina.

Við fórum strax af stað - og komumst þá að því að ljósið passaði engan veginn við íbúð tendamóðurinnar en myndi smellpassa hjá okkur í Ljósalandinu! Úr varð að ég keypti af henni innleggsnótuna og eignaðist ljósið litla.

Í gær átti svo að setja ljósið upp, en það var sama hvernig við snerum því og hölluðum að það var svo rammskakkt og bogið að raunalegt var á að horfa.

Ég fór því eina ferðina enn í búðina og sagði mínar farir ekki sléttar. Afgreiðslumaðurinn komst að hinu sama - ljósið var kengbogið.

En viti menn - ljósið er mjög líklega uppselt í búðinni!

Nú er spurningin hvort ég þarf að bíða í eitt ár enn eða hvort afgreiðslumaðurinn finnur ljós á lagernum. Ég fæ að vita það á morgun!


Leggja or belg
2 hafa lagt or belg
07.12.2006 17:20:31
Speglar og ljós.. greinilega þín deild Rakel!
etta lagi Marta belginn
07.12.2006 22:04:30
Þú ert alveg yndislega heppin í öllum svona málum, Rakel mín ;)
etta lagi Sigurrós belginn